Gjúfursárfoss fellur fram í litfögru gljúfri rétt fyrir neðan bílastæðið. Þaðan er svo merkt gönguleið er niður með Gljúfursánni, niður að sjó, um Drangsnes.
Að ganga meðfram þverhníptum klettunum er mikil upplifun og lætur fáa ósnortna. Gönguleiðin nær að Krummsholti. Þar eru velsjáanlegar ævafornar tóftir, frá víkingaöld að því að talið er. Þar á Þorsteinn uxafótur að hafa búið. Þegar maður virðir fyrir sér þessar mannvistarleyfar læðist að manni sú ósk að jörðin gæti talað og flutt okkur sögur forfeðranna.
Hinumegin fjarðarins má sjá kauptún Vopnfjarðar sem stendur á tanga sem sagar út í fjörðinn. Tanginn er kallaður Kolbeinstangi.
Áin Gljúfursá var á fyrri tíð mikill farartálmi þegar ferðast þurfti austur fyrir Hellisheiði eystri. Mörg slys urðu þegar fólk var að reyna að þvera hana fótgangandi eða á hestum. Ef gengið er frá bílastæði upp með ánni er komið að gömlu brúnni yfir Gljúfursá. Þar má sjá hleðslur frá fyrstu brúnni sem var byggð yfir ána, rétt um aldamótin 1900 og þótti þá mikið mannvirki.
Sagt er að fyrsta brúin yfir ána hafi verið byggð í kjölfar banaslyss sem þar átti sér stað þegar maður á hesti freistaði þess að komast yfir ána að vetri til.