Gömlu húsin í bænum

Í miðju kauptúni Vopnafjarðar, rétt fyrir ofan verslunina, standa elstu hús þorpsins, Guðjohnsenshús (Jaðar, 1880), Baldursheimur (Einarshús, 1883-4) og Kaupvangur hinum megin plansins (1884).  Á margan hátt og ekki hvað síst í byggingarsögulegu tilliti eru hús þessi mikilsverð.  Byggingarmeistari þeirra var Frederic Bald, sá hinn sami og hafði yfirumsjón með byggingu Alþingishúss Íslendinga og Hegningarhússins í Reykjavík.

Kaupvangur eða Faktorshúsið er eitt af gömlu húsunum í bænum. Það var byggt sumarið 1884. Byggingameistarinn var hinn danski Fredrik Bald, sá hinn sami og reisti Alþingishúsið í Reykjavík. Danska verslunarfélagið Ørum & Wolff nýtti húsið til 1918 en þá keypti Kaupfélag Vopnfirðinga húsnæðið og rak þar verslun til ársins 1959. Í húsinu var aðalverslun kaupfélagsins og íbúð kaupfélagsstjóra. Eftir að verslunin var flutt úr húsinu voru þar þrjár íbúðir sem og vörugeymsla fyrir kaupfélagið fram til ársins 1982 - eftir það stóð húsið autt um árabil. Um aldamótin 2000 var húsið að hruni komið.  Sveitarfélagið réðist þá í það stórvirki að endurgera þetta fornfræga hús og blasir það nú við gestum Vopnafjarðar sem glæsilegt vitni um stórhug hins gamla tíma og hins nýja um leið.


Glæsibær var byggður 1910 af Olgeiri Friðgeirssyni þáverandi  verslunarstjóra Örum og Wulff.  Íbúð var þá á neðri hæð  hússins og verslun á efri hæð. Glæsibær er timburhús, klætt með járni og sennilega verið málað rautt. Núverandi eigandi leiðir að því  líkum að frá skærum lit þess upphaflega komi nafnið Glæsibær. 

Milli Glæsibæjar og Baldursheims stóð áður hús sem kallað var Bakaríið en það hefur nú verið rifið. Pétur Guðjohnssen lét byggja Guðjohnssenshús (Jaðar) og bróðir hans, Einar Guðjohnssen læknir, átti og bjó í Baldursheimi. Pétur var verslunarstjóri verslunarinnar Örum og Wulff 1875-1883. Einar lést af slysförum langt fyrir aldur fram eftir 3 ára starf sem héraðslæknir á Vopnafirði. Þeir bræður voru vel liðnir og tóku virkan þátt í samfélaginu. Í minningargrein um Pétur segir: „...var riðinn við flestar framkvæmdir í framfara áttina, sem áttu sér stað í þessu byggðarlagi, í þau meir en 25 ár, sem hann lifði hér.“  Frá árinu 1906 var símstöð í Guðjohnssenshúsi og póstþjónusta í Baldursheimi, en símstöðin fluttist einnig yfir í Baldursheim árið 1922 og var hvort tveggja starfrækt þar fram á miðja tuttugustu öldina.

Framtíðin við Hafnarbyggð er myndarlegt portbyggð timburhús á hlöðnum kjallara, hæð og ris.  Jón Vídalín og Louis Zöllner áttu í viðskiptum við pöntunarfélag sem starfaði hér á Vopnafirði í kringum aldamótin 1900. Árið 1897 gera þeir félagar, Jón og Zöllner, lóðarleigusamning hér og byggja Framtíðina. Ári seinna hefja þeir hér verslunarrekstur og var fyrsti verslunarstjóri þeirra Grímur Laxdal, vinsæll og vel metinn maður á Vopnafirði. Það fer þó svo að Vídalín og Zöllner hætta að starfa saman og árið 1901 kaupir Jörgen Hansen hlut Vídalíns í versluninni þeirra hér á Vopnafirði. Þessi verslun varð fljótt vinsæl og reyndu menn að losa sig frá viðskiptum við Örum og Wulff sem aðsetur höfðu í Kaupvangi, til að flytja sig í „efri verslunina“ eins og hún var oft kölluð. Árið 1907 var stofnað verslunarfélagið Framtíðin, með fleiri verslunum á Austurlandi og fær húsið nafn sitt af því verslunarfélagi þrátt fyrir að hafa síðar verið sameinað „Hinum sameinuðu íslensku verslunum“. Síðast var verslað í Framtíðinni á þriðja tug tuttugustu aldar. Eftir að verslun var hætt í húsinu gekk það kaupum og sölum, m.a. átti samvinnuútgerðarfélagið Kolbeinn ungi það. Að endingu keypti Kaupfélag Vopnfirðinga Framtíðina af bankanum og notaði lengst af sem geymslu fyrir ull, síðar sem almenna geymslu. Smám saman fer húsið að láta mikið á sjá og enginn sem sinnti um það. Árið 1998 kaupir Árni Magnússon rafvirkjameistari á Vopnafirði húsið og gerir það upp á næstu árum. Framtíðin hefur gengið í endurnýjun lífdaga og þykir nú með fegurstu húsum kauptúnsins. 

 

 

 

 

 

 

Kirkjuból, sem stendur við Kolbeinsgötu 7,  var byggt árið 1900 fyrir verslunarstjóra Vídalíns og Zöllners-verslunarinnar. Í manntali 1901 er húsið kallað Nýji-Kastali og síðar Zöllnershús og því ljóst að Kirkjubóls heitið er síðari tíma nafngift. Þeir bræður, Jón Múli og Jónas Árnasynir, voru fæddir á Vopnafirði og tóku sín fyrstu spor í þessu húsi. Faðir þeirra, Árni frá Múla, var forstjóri Hinna sameinuðu verslana á Vopnafirði um skeið og bjó þá hér í Kirkjubóli ásamt fjölskyldu sinni. Bræðurnir eru Íslendingum að góðu kunnir m. a.  fyrir ríkulegt framlag sitt til menningar og lista á lífsferli sínum. Eftir þá liggja leikrit, söngvar og ljóð sem flestir Íslendingar þekkja og kunna. Hver kannast ekki við „Ekki gráta elskan mín,  þó þig vanti vítamín…“ eða hið kunna sönglag „Einu sinni á ágústkveldi ..."

Í Kaupvangi er setur þeirra bræðra að finna, Múlastofa, sýning sem er tileinkuð þeim bræðrum og lífsstarfi þeirra. Í Kaupvangi er einnig líkan eftir Jón Pétur Einarsson af plássinu, miðbæ Vopnafjarðar, eins og það leit út um aldamótin 1900. Við hvetjum ykkur til að koma þar við og njóta.