Gunnar Gunnarsson

Minnisvarði um annað af höfuðskáldum Íslendinga, rithöfundinn og Vopnfirðinginn Gunnar Gunnarsson (1889-1975), stendur í brekkunni ofan við Garðaklett, utan við handverkshúsið við Hafnarbyggð.

Minnisvarðinn var afhjúpaður á aldarafmæli skáldsins árið 1989. Áletrunin á plötunni er tilvitnun í kvæðið Móðurminning sem var það fyrsta sem kom út eftir Gunnar, árið 1906. Þá var hann enn á Vopnafirði:

Efað þú færð mína móður upp spurt,
hvíslaðu að henni kveðju frá mér,
hvar sem hún er.

Gunnar fæddist að Valþjófsstað í Fljótsdal 18. maí 1889 en fluttist 1896 með fjölskyldu sinni til Vopnafjarðar. Fjölskyldan settist að á Ljótsstöðum í Vesturárdal en móðir Gunnars lést árið eftir. Gunnar naut farskólagöngu í sveitinni og gekk í barnaskólann á Vopnafirði í eitt ár. Hann fékk einnig menntun hjá prestinum á Hofi, Sigurði P. Sívertsen. Árið 1907 yfirgaf Gunnar Gunnarsson heimahagana og hélt til náms við lýðháskólann Askov í Danmörku.

Heimþrá olli því að Gunnar vildi flytja aftur til föðurlandsins og lá leið hans fyrst til baka á æskuslóðirnar í Vopnafirði. Árið 1926 keypti hann heiðarjörðina Arnarvatn inn af Vopnafirði og grannjörðina Kálffell árið 1932. Þær slóðir eru meðal annars sögusvið Heiðarharms. Árum saman leitaði Gunnar að góðri bújörð og þegar honum bauðst að kaupa Skriðuklaustur árið 1938, næsta bæ við fæðingarstað hans í Fljótsdal, stóðst hann ekki mátið. Á Skriðuklaustri ætlaði hann sér að stunda búskap með reisn og byggði stórhýsi sem vinur hans, þýski arkitektinn, Fritz Höger, teiknaði í bæverskum stíl. Húsið reis sumarið 1939 og þá fluttu Gunnar og Franzisca kona hans inn í það. Búskapurinn á Skriðuklaustri varð hins vegar endasleppur vegna heimstyrjaldarinnar. Árið 1948 gáfu hjónin íslensku þjóðinni staðinn með öllum húsum og fluttu sjálf til Reykjavíkur þar sem þau bjuggu til æviloka en Gunnar lést 1975. Á Skriðuklaustri er nú sögu- og menningarsetur til minningar um Gunnar og í Gunnarshúsi í Reykjavík hefur Rithöfundasamband Íslands aðsetur sitt.