Heiðarbýlin í göngufæri- Vopna- og Jökuldalsheiði

Nú geta íbúar og gestir Vopnafjarðar notið göngu í ósnortinni náttúru heiðanna ofan Vopnafjarðar og heimsótt gömlu heiðarbýlin um leið, kynnt sér sögu þeirra og jafnvel sett sig í spor forfeðranna.

Á 19. öld og fram á þá 20. byggðust fjölmörg býli í Jökuldalsheiði og nágrenni. Fátækir bændur neyddust til að leita jarðnæðis upp til fjalla eftir að þröngt varð í sveitum á láglendi. 

Byggðin í heiðinni stóð í rúma öld, frá 1841 til 1946. Þegar mest var bjuggu á heiðunum ofan Vopnafjarðar og Jökuldals vel á annað hundrað manns. Býlin í Vopnafjarðar- og Jökuldalsheiði urðu alls 16 og voru reist á árunum 1841-1862.
 

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Kaupvangur menningar- og fræðasetur Vopnfirðinga hafa sameinast um að byggja upp menningartengda ferðaþjónustu á Jökuldalsheiðinni og heiðunum þar í kring.  Gaman er að ganga á milli heiðarbýlanna.   Hjá hverju býli er hólkur, sem inniheldur upplýsingar um býlið, ábúendur og sögur tengdar því, gestabók og stimpill.

Kort til að safna stimplum er til sölu í Sænautaseli, á Upplýsingamiðstöðum á Egilsstöðum og Vopnafirði og á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, Tjarnarási 8, Egilsstöðum. Þar er einnig hægt að fá ókeypis leiðarvísi og bækling um býlin í heiðunum.

Á meðfylgjandi heimasíðu heiðarbýlanna er einnig hægt að fá upplýsingar um heiðarbýlin og staðsetningu þeirra.


Veitt er viðurkenning þeim, sem skila inn korti með 10 stimplum og lenda þeir í potti, sem dregið er úr í september ár hvert.  Veglegir vinningar.
Vinsamlegast skilið stimpilkortum á skrifstofu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs,  að Tjarnarási 8,  á Egilsstaðastofu við tjaldstæðið á Egilsstöðum, eða á skrifstofu Vopnafjarðarhrepps í síðasta lagi 15.sept. ár hvert.

Leiðarvísirinn hefur einnig verið prentaður á ensku og var m.a. sendur í Íslendingabyggðir í Kanada, því margir ábúendur á Heiðarbýlanna fluttu til Vesturheims.

Tengiliður:          Ferðamálafulltrúi Vopnafjarðar 

Heimilisfang:      Kaupvangi,  690 Vopnafjörður

Sími:                      473-1331

Netfang:               info@vopnafjardarhreppur.is

Vefsíða heiðarbýlanna:   Smellið hér