Heiðar- og eyðibýli í Selárdal

Áhugasamir Jeppaeigendur eiga þess nú kost, í kjölfar lagningar veiðivegar um Selárdal, að heimsækja þennan afskekkta dal og fræðast um sögu ábúenda hans. Búið er að merkja alla  bæi við veginn og setja söguskilti við tættur.  Einnig er búið að merkja margar hliðarár og læki.

Vegurinn er  fær öllum jeppum og  þeir sem leggja leið sína upp dalinn fá að kynnast fjalladýrð eins og hún gerist best.  Dalurinn er perla þeirra sem hálendinu unna með öllu sýnu víðerni, langt í burtu frá hraðasamfélagi nútímans.
 

 Selárdalur er einn þriggja stærstu dala Vopnafjarðar.  Efst í dalnum, eða inn í heiði eins og oft er sagt, var byggð um langt árabil.  Dalurinn var harðbýll og því ekki fyrir hvern sem er að sjá fyrir sér og sínum með búskap þar.

Vesturferðir hófust fyrir alvöru eftir Öskjugosið 1875. Árin á eftir voru mikil harðindaár sem auðvelduðu ekki ábúð í afdalabyggðum Selárdals en dalurinn nær upp í 400 metra yfir sjávarmál.  Fátæktin og erfiðleikarnir voru því miklir.

Í kringum aldamótin 1900 taka býlin að leggjast í eyði eitt af öðru.  Ábúendur freistuðu gæfunnar í nýjum heimi vestur í höfum. Saga þessara býla er því samofin sögu vesturferðanna sem mikilvægt er að ekki falli í gleymskunnar dá, enda koma enn þann dag í dag afkomendur ábúenda þessara býla til að finna rætur sínar á Íslandi, slóðir forfeðranna.

Í dag er einn bær í byggð í Selárdal, Hróaldsstaðir.  Síðasti bærinn innan Hróaldsstaða fór í eyði 1962.  

 Bæirnir sem nú eru í eyði austan ár, talið utanfrá : Fossgerði, Breiðamýri, Lýtingsstaðir, Fagurhóll og Gil (Selárbakki). Norðan ár, talið utanfrá: Áslaugarstaðir, Leifsstaðir, Gömlu Leifsstaðir, Þorvaldsstaðir, Út Hamar, Fram Hamar, Mælifell, Aðalból, Fossvellir og Selsárvellir. 

Tengiliður:          Ferðamálafulltrúi Vopnafjarðar 

Heimilisfang:      Kaupvangi,  690 Vopnafjörður

Sími:                      473-1331

Netfang:               info@vopnafjardarhreppur.is

Smellið hér til að sjá upphafsstað leiðar við

Hróaldsstaði og loka stað, Mælifell