Kvenfélagið Lindin

Nýir félagar ávallt boðnir velkomnir í félagið!

Félagið var stofnað 16. maí 1921 að Hofi og hét þá fyrst Hofsdeild Kvenfélags Vopnafjarðar.  Fjalladeild Kvenfélags Vopnafjarðar var stofnuð á sama tíma en lagði niður starfsemi um 1935.  Deildir þessar voru sjálfstæðar í rekstri en unnu að mörgum verkefnum með Kvenfélagi Vopnafjarðar (stofnað 1907).  Sameiginlegur fundur félaganna var haldin árlega.   Um árabil var heiti félagsins nokkuð á reiki, var ýmist talað um Kvenfélagið Hofsdeild eða hið upprunalega nafn notað.  Í tilefni af 50 ára afmæli ákváðu félagskonur að gefa því nýtt nafn og nefndu það Kvenfélagið Lindina.

Markmið kvenfélaganna hefur frá upphafi verið að vinna að hverskonar menningar- og mannúðarmálum, efla samvinnu og félagsþroska kvenna, og standa fyrir fræðslu og námskeiðshaldi fyrir konur.

Fyrsta verkefni félagsins var að safna fé til stúlknaheimilis í Reykjavík (Hallveigarstaða).  1922 keyptu kvenfélögin saman spunavél og starfræktu í félagi.  Eignuðust vegna spunavélar húsnæði á Tanga á tímabili, en vélin var svo gefin Minjasafninu á Bustarfelli 1964. Námskeið í vefnaði, saumum og matreiðslu voru haldin af og til, en sú starfsemi að mestu aflögð í dag.  Hjúkrunarkona starfaði um skeið á vegum kvenfélaganna og hreppsins og greiddu þessir aðilar kostnaðinn af hennar störfum.

1928 byggði félagið lítið samkomuhús að Hofi og tuttugu árum síðar var það rifið og timbrið lagt til byggingar Staðarholts í samvinnu við ungmennafélagsdeildina.  Um síðustu aldamót var það hús nánast ónýtt en þá tóku kvenfélagskonur sig til og endurbyggðu það að mestu í sjálfboðavinnu með velunnurum félagsins og er það nú félagsheimili Lindarinnar og til útleigu fyrir almenning.

Allt fram á 5.áratuginn veitti félagið fátækum marga styrki.  Tilvitnun í bókun vegna jólaglaðnins sem veittur var fátækum:  að gera föt á öll börn á einu heimili fyrir hver jól, innri sem ytri fatnað og að eldra fólkið fengi síðan “sinn leppinn hvert”.

Allt til þessa dags hefur félagið hlaupið undir bagga þar sem þörfin er brýn.  Lagt fram fé til tækjakaupa í grunnskóla, heilsugæslu, styrkt fjársafnanir handa bágstöddum heima og erlendis.  Félagið hefur greitt fyrir uppeldi tveggja stúlkna  í Brasilíu í svokölluðu SOS-barnaþorpi.

Allt frá 1942 að félagið keypti trjáplöntur og gróðursetti í Hofskirkjugarði hefur garðurinn notið umhirðu félagskvenna og þar hafa þær nú komið fyrir bekk í horn garðins og gert þar hvíldarreit í minningu kvenna.

Félagið er aðili að Minjasafninu á Bustarfelli frá 1982 og á þar fulltrúa í stjórn.  Félagskonur vinna á Bustarfelli að vorhreingerningu og taka þátt í safnadegi.

Það var árið 1964 sem ákveðið var á sameiginlegum fundi Hofsdeildar og Kvenfélags Vopnafjarðar að hefja fjársöfnun til byggingar elliheimilis á Vopnafirði.  1976 var byrjað að byggja Sundabúð sem reist var í þrem áföngum.  Lögðu félagskonur fram umtalsverða sjálfboðavinnu við bygginguna, sérstaklega byggingu fyrsta hússins.  Unnu þar við hreinsun á mótatimbri, negldu þakpappa, máluðu, saumuðu gluggatjöld og komu nánast að öllum stigum byggingar.  Jafnframt fór mikil tími í fjáröflun í Elliheimilissjóð og má fullyrða að án framtaks félagskvenna í báðum kvenfélögunum hefði Sundabúð ekki orðið að veruleika á þeim tíma sem reyndin varð.  Áratugum saman snérist nánast allt starf félagsins um byggingu Sundabúða sem er til þessa stærsta framtak félagsins.

1998 stofnuðu félagskonur Menntasjóð Lindarinnar en takmark sjóðsins er að styðja við framhalds- og endurmenntun Vopnfirðinga.  Konur ganga fyrir við styrkveitingar.   Sjóðurinn hefur þegar sannað gildi sitt og veitt á fjórða tug kvenna  stuðning til náms.  Höfuðstóll sjóðsins greiðir nú styrki en fram til þessa hefur sjóðurinn meira  og minna leitaði til kvenfélagsins við greiðslu styrkja.

Til þess að geta staðið að svo mörgum góðum verkefnum þarf öfluga fjáröflun og hefur verið gripið til margra ráða á því sviði.  Í dag koma tekjur félagsins mest frá jólabasar, kaffisölu, hreinsun kirkjugarðs, hreingerningum og málningarvinnu með fleiru.  Félagskonur leggja félaginu lið eftir getu og hafa ánægju af samstarfi og þeim fáu frístundum sem félagið veitir okkur á nokkra ára fresti þegar farið er út að borða eða skroppið í ferðalag.

Félagskonur voru framan af starfsævi félagsins að mestu búsettar í sveitinni en það hefur aldrei verið skilyrði fyrir þátttöku og nú í dag eru allar konur hvattar til að kynna sér starfsemi félagsins, boðnar hjartanlega velkomnar á fundi í von um að heimsóknir verði til fastrar setu í félaginu. Öflugt kvenfélag er stuðningur fyrir byggðarlagið.

 

Formaður:                             Karen Hlín Halldórsdóttir
Netfang:                                karenhlin@simnet.is

Heimilisfang:                        Hofi

Húsnæði kvenfélagsins:    Staðarholt

Sími:                                       869 7461

 

Staðsetning Staðarholts: 

GPS:  65.6551374 - 15.0166583

Smellið hér til að sjá staðsetningu á korti