Skjólfjörur er staður sem þið ættuð ekki að missa af ef leiðin liggur um Vopnafjörð. Örstutt ganga er frá veginum niður í fjörurnar. Þar er stórfenglegt útsýni yfir opið Atlandshafið og hver veit nema hvalur blási áhorfendum til skemmtunnar. Litadýrð fjörusteinanna gleðja augað og rekaviður og annað sem sjórinn hefur á land borið vitnar um þá ægikrafta sem hafið býr yfir. Ekki er heimilt að taka steina með sér úr fjörunni.
Eitt af einkennum Vopnafjarðar eru ótrúlegir klettadrangar sem taka á sig ýmsar kynjamyndir. Ljósastapi er steindrangur sem stendur í sjónum rétt undan Skjólfjara. Sennilega áttuð þið ekki von á að rekast á fíl á Íslandi en Ljósastapinn kemst sennilega næst því, þar sem lögun stapans minnir óneitanlega á fíl og gengur Ljósastapi oft undir gælunafninu „Fíllinn“ meðal Vopnfirðinga.
Til hægri við „Fílinn“ má sjá fjallið Búrið ganga í sjó fram. Búrið er hluti Fagradalsfjalla og er þar elsta megineldstöð á Austurlandi. Í þeim fjallabálki má finna litfagurt líparít sem svo sannarlega setur svip sinn á umhverfið. Merkt gönguleið er niður í Þerribjörg, austanmegin í Hellisheiði eystri, þar sem líparítið skartar sínu fegursta. Gönguleiðin er frekar erfið og löng og ekki fyrir hvern sem er, en vel þess virði fyrir göngugarpa.